Þjónusta

KVASIR lögmenn veita almenna lögfræðiþjónustu með sérstaka áherslu á viðskiptalífið. Við leggjum áherslu á að vera þekkt fyrir faglega ráðgjöf og góða þjónustu. Í hinu flókna umhverfi nútímans er sérhæfing lykillinn að ráðgjöf sem skilar árangri. KVASIR lögmenn kappkosta að búa ávallt yfir sérþekkingu á þeim sviðum sem við veitum þjónustu á.

Sagan af Kvasi

Eftir mikla styrjöld innsigluðu norrænu goðaættirnar Æsir og Vanir friðarsátt sín á milli með því að spýta í ker hráka sínum. Úr hinum guðlega hráka skópu þeir nýjan guð þekkingar og visku. Sá hét KVASIR og var svo vitur að enginn gat spurt hann þeirra hluta er eigi kunni hann úrlausn. Til að fyrirbyggja frekari deilur hlaut KVASIR einnig undraverða sáttahæfileika.

KVASIR fór víða um heim og kenndi mönnum fræði og þá er hann kom að heimboði til dverga nokkurra, Fjalars og Galars, þá kölluðu þeir hann með sér í einmæli og drápu hann. Er dvergarnir sáu hve blóð hans var fagurrautt tímdu þeir ekki að láta það fara til spillis og létu blóðið renna í tvö ker, Són og Boðn og einn ketil, Óðrerir. Þeir blönduðu svo hunangi við blóðið og brugguðu úr því hinn helga drykk, Skáldamjöðinn, sem var þeirrar náttúru að hver sem drakk hann varð skáld eða fræðimaður. Dvergarnir sögðu ásum að KVASIR hefði kafnað í mannviti fyrir því að enginn var svo fróður, að spyrja kunni hann fróðleiks.

Fjalar og Galar buðu jötninum Gillingi í sjóferð, hvolfdu skipinu og týndist Gillingur ósyndur. Þeir sögðu konu hans tíðindin en drápu hana þar sem þeim leiddust óp hennar. Tók þá Suttungur sonur hans dvergana og flutti á sæ út og setti þá á flæðisker. Dvergarnir keyptu sér lífsgrið með því að bjóða Suttungi mjöðinn dýra. Flutti hann mjöðinn heim í Hnitbjörg og lét dóttur sína Gunnlöðu gæta hans dag og nótt.

Er Óðinn frétti af miðinum dulbjóst hann sem vinnumaðurinn Bölverkur og hélt til Jötunheima. Vélaði hann Bauga, bróður Suttungs til að hjálpa sér að komast í nánd við Gunnlöðu og mjöðinn helga. Svaf hann þrjár nætur hjá Gunnlöðu og ginnti hana til að gefa sér þrjá smásopa af miðinum. Gunnlöðu til skelfingar tæmdi Óðinn allan mjöðinn í þremur gúlsopum og flaug að því loknu á brott í arnarham heim til Ásgarðs og jötuninn á eftir. Er í Ásgarð kom settu goðin út ker sem Óðinn spýtti miðinum í og er það skáldskapargáfan sem menn hljóta, en sumt gekk aftur úr honum, sem er kallað skáldfíflahlutur, og hefur það hver sem vill.

Aðsetur

KVASIR Lögmenn eru staðsettir að Laugavegi 182,
105 Reykjavík, "Kauphallarhúsinu". 
Sjá kort 

 

 

 

  

Kirkjuvegi 23, 900 Vestmannaeyjum
sími/tel: 488-1600 Sjá kort

 

 

Nafnið Kvasir

Persónan Kvasir kemur fyrir í Snorra Eddu. Kvasir var þeirrar náttúru að ekki var hægt að bera upp þá spurningu við hann sem hann ekki gat leyst úr. Einnig bjó hann yfir mikilli sáttfimi, enda afsprengi sáttar goðaættanna Vana og Ása, sem vildu með sköpun Kvasis fyrirbyggja frekari deilur. Fyrir lögmenn er nauðsynlegt að eiga ráð undir rifi hverju til handa viðskiptamönnunum, auk þess að búa yfir samningalipurð og sáttfimi. Í huga eigenda KVASIR lögmanna eru hugkvæmni og innsæi einnig lykilþættir í því að ná framúrskarandi árangri, en Skáldamjöðurinn sem lagaður var úr blóði Kvasis færði mönnum þessar gáfur. Fyrir okkur er nafnið táknrænt fyrir útsjónarsemi, sáttfimi og hugkvæmni, sem eru kostir sem við leggjum áherslu á.